Fjölmargir hópar, hérlendis sem erlendis, telja sig ekki njóta grundvallarmannréttinda í samfélaginu. Sem dæmi má nefna flóttamenn, fatlaða, hinsegin og kynsegin fólk og ýmsa þjóðernishópa.

Í áfanganum verða mannréttindi sem birtast m.a. í stjórnarskrá Íslands skoðuð m.t.t. umræðu í nútímanum um mannréttindi og meint brot á þeim gagnvart ýmsum hópum og einstaklingum á Íslandi. Gerð verður grein fyrir alþjóðlegum mannréttindasamningum og sáttmálum sem Ísland á aðild að og ljósi varpað á orðræðu nútímans um mannréttindi og skort á þeim bæði hér á landi og vítt og breitt um heiminn. Áhersla er á að tengja námsefnið reynsluheimi nemanda, auka víðsýni hans og rökhugsun og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Nemandinn þjálfast í heimildavinnu- og rýni af ýmsu tagi.


Í áfanganum verður lögfræði sem fræðigrein kynnt þar sem fjallað verður um aðferðafræði og mikilvæg grundvallarhugtök lögfræðinnar auk þeirra réttarheimilda sem lögfræði grundvallast á. Nemendur munu þjálfast í að lesa lög og greina réttarstöðu aðila og réttaráhrif laga. Markmið áfangans er að veita nemendum góða innsýn í aðferðafræði lögfræðinnar og er ætlað að hafa hagnýtt gildi til að veita nemendum þá grundvallarfærni og þekkingu sem þörf er á til þess að geta lesið og túlkað lög.