Upptökur kvikmynda og sjónvarpsþátta, hvort sem um er að ræða stúdíóupptökur eða upptökur á tökustað utandyra, er afar lærdómsríkt ferli. Á tökustað vinna tugir manna saman að ólíkum verkefnum, sem öll þarf að leysa rétt af hendi á réttum tíma. Í áfanganum kynnast nemendur af eigin raun hvernig kvikmynd er tekin upp á tökustað. Þetta er gert með sjálfboðaliðavinnu nemenda við upptöku kvikmyndar/kvikmynda á tökustað undir leiðsögn kennara. Nemendur læra raunveruleg vinnubrögð á tökustað og jafnframt gefst þeim kostur á að nýta hugtakaþekkingu, orðaforða og faglega færni sem þeir hafa aflað sér í fyrri áföngum brautarinnar.

Í áfanganum vinna nemendur með eigin hugmynd að vandaðri stuttmynd, sem verður lokaverkefni þeirra í kvikmyndagerð. Hugmyndinni er í upphafi skilað sem útdrætti að mynd, sem síðan er unnin áfram í samvinnu og undir handleiðslu ráðgjafa. Samhliða er lögð fram myndstikla til kynningar á verkinu fyrir framleiðendum og fjármögnunaraðilum. Þegar verkinu er lokið á það að vera hæft til þátttöku í samkeppni framleiðenda um gott handrit fyrir stuttmynd/heimildarmynd. Verkið skilast sem fullbúið handrit að stuttmynd ásamt, myndstiklu og nauðsynlegum fylgigögnum. Unnið undir leiðsögn kennara og faglegs rýnihóps.

Í áfanganum er unnið með lýsingu og hljóðupptöku á tökustað. Nemendur kynnast hlutverki hljóðsetningar og tónlistar við uppbyggingu kvikmynda með því að horfa á valin atriði úr kvikmyndum með tilliti til lýsingar þeirra og hljóðlegrar uppbyggingar. Nemendur undirbúa lýsingu á tökustað og þjálfa grunnatriði við upptöku á hljóði fyrir kvikmynd. Nemendur hljóðvinna og hljóðsetja nokkur stutt myndskeið, með áherslu á samspil mismunandi lýsingar og hljóðs.

Í áfanganum verða skoðaðar mismunandi gerðir heimildarkvikmynda frá ýmsum tímum og rýnt í tilgang þeirra og heimildagildi. Allt frá fullkomlega sviðsettum, leiknum og mikið leikstýrðum heimildarmyndum til algerlega óleikstýrðra heimildarmynda þar sem kvikmyndatökuvél fylgist með líkt og fluga á vegg. Kynntar verða nokkrar helstu meginreglur um uppbyggingu, myndatöku og klippingu heimildarmynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahátíðir. Nemendur leggja drög að eigin heimildarmynd sem þeir taka upp og klippa og skila í lok áfanga.

Markmið áfangans er að kynna fyrir nemendum mismunandi uppbyggingu kvikmyndahandrita og gerð þeirra með hjálp sérhæfðra forrita. Farið verður yfir frumsamin handrit, helstu atriði í uppbyggingu handrita, tekin dæmi um hvernig bækur hafa verið umskrifaðar í kvikmyndahandrit ásamt handrit að heimildarmyndum. Megináhersla á dramatíska uppbyggingu sögu sem sögð er með hjálp kvikmyndarinnar.

Markmið áfangans er að kynna nemendum grunnatriði kvikmyndagerðar í gegnum stuttmynda-og/eða heimildarmyndaformið. Jafnframt að kynna fyrir nemendum mismunandi uppbyggingu kvikmynda eftir eðli þeirra og tegund. Nemendur læri meginatriði stuttmyndagerðar, gerð tökuáætlunar, undirbúning á upptökustað, grunnatriði í beitingu kvikmyndatökuvélar og grunnatriði við notkun sérhæfðs klippiforrits. Nemendur skila í lok áfangans stuttmynd (leikna eða heimildarmynd), sem unnin er í hópvinnu.